Fara í efni

Arion banki rafvæðir bílakost sinn

Arion banki hefur fest kaup á átta rafbílum til að nota í starfsemi sinni. Bílarnir eru af tegundinni Volkswagen e-Golf, þeir eru hljóðlausir og vistvænir enda er rafmagn eini orkugjafi þeirra. Með kaupum á rafbílum vill Arion banki draga úr útblæstri farartækja í eigu bankans sem og auka hagræði í rekstri ...

Arion banki hefur fest kaup á átta rafbílum til að nota í starfsemi sinni. Bílarnir eru af tegundinni Volkswagen e-Golf, þeir eru hljóðlausir og vistvænir enda er rafmagn eini orkugjafi þeirra. Með kaupum á rafbílum vill Arion banki draga úr útblæstri farartækja í eigu bankans sem og auka hagræði í rekstri. Er þetta einn liður í að framfylgja umhverfisstefnu bankans sem felur meðal annars í sér að sýna umhverfinu virðingu með því að fara sparlega með orku og notast við umhverfisvænar lausnir. Rafknúnar bifreiðar eru mjög áhugaverður framtíðarkostur hér á landi vegna góðs aðgangs að vistvænni raforku.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, afhenti Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, lyklana að rafbílunum í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni í dag. „Það er okkur hjá Heklu mikil ánægja að afhenda Arion banka Volkswagen e-Golf rafmagnsbíla sem hafa fengið feikilega góðar viðtökur. Rafmagnsbílar stuðla að sjálfbærni og minnkun á losun kolefna út í umhverfið. Með þessu er Arion banki að framfylgja metnaðarfullri umhverfisstefnu sinni og sýna frábært fordæmi. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri til að nýta endurnýjanlega vistvæna orku til fólksflutninga.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka: „Við höfum á undanförnum árum lagt áherslu á umhverfismál innan bankans og þá sérstaklega pappírslaus viðskipti. Netbankinn og nú síðast Arion appið eru stórir þættir í því. Viðskiptavinir okkar geta í dag sinnt mikilvægum hluta sinna fjármála án þess að pappír komi þar við sögu og án þess að þurfa að setjast upp í einkabílinn. Þannig eru bankaviðskipti umhverfisvænni en áður. Við höfum einnig innleitt umhverfisvænar prentlausnir og lagt áherslu á endurvinnslu. Kaupin á rafbílum til að nota í okkar starfsemi eru mikilvægur liður í því að draga úr kolefnissporum okkar í umhverfinu.“

Arion banki hefur markað sér skýra stefnu í umhverfis- og samgöngumálum og sett sér fjölbreytt markmið þar að lútandi. Lögð er áhersla á góða pappírs- og orkunýtingu, flokkun sorps, umhverfisvænar og heilsusamlegar samgöngur starfsfólks og að stuðla almennt að pappírslausum viðskiptum með auknu framboði rafrænnar þjónustu.