Fara í efni

Nýr veltibíll afhentur

HEKLA hf. afhenti í byrjun maí forsvarsmönnum Brautarinnar - bindindisfélags ökumanna og Ökuskóla 3 nýjan veltibíl við athöfn í Sundahöfn. Veltibíllinn, sem margsannað hefur gildi sitt, er sá fimmti í röðinni en fyrsti bíllinn var afhentur fyrir 20 árum ...

HEKLA hf. afhenti í byrjun maí forsvarsmönnum Brautarinnar - bindindisfélags ökumanna  og Ökuskóla 3 nýjan veltibíl við athöfn í Sundahöfn. Veltibíllinn, sem margsannað hefur gildi sitt, er sá fimmti í röðinni en fyrsti bíllinn var afhentur fyrir 20 árum eða árið 1995. Veltibíllinn er af gerðinni Volkswagen Golf og er framlag HEKLU hf. til forvarnarmála í umferðinni.

„Okkur þótti mikilvægt að halda áfram að styrkja þetta góða starf sem Brautin og Ökuskóli 3 hafa staðið fyrir. Volkswagen Golf er þekktur fyrir öryggi og traust en það er einmitt sú tilfinning sem þú átt að hafa þegar beltið er spennt,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU.

Það voru Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofur og Friðbert Friðbertssyn, forstjóri HEKLU sem fóru fyrsta hringinn í nýja veltibílnum.

Hring eftir hring

Þrjú hundruð þúsund Íslendingar hafa farið hring í veltibílnum á þeim tuttugu árum sem hann hefur verið notaður.

„Veltibíllinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í forvarnarstarfi hér á landi og er stór þáttur í átakinu til að hvetja alla til að nota bílbelti. Þeir sem prófa veltibílinn finna hversu gríðarlega mikilvægt það er að spenna beltið áður en haldið er af stað,“ segir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu.

Gamli veltibíllinn var kvaddur við sama tækifæri, bókstaflega í Sundahöfn.

„Það skiptir máli að fólk átti sig á hvað það er sem gerist þegar bíll fer í sjóinn. Jafnvel þó hraðinn sé lítill er nauðsynlegt að vera í bílbelti þegar bíllinn skellur á haffletinum og það sást vel þegar gamli veltibíllinn fór á bólakaf,“ segir Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar.