Fara í efni

Upplýsingar frá Volkswagen

Þann 18. september 2015 barst Volkswagen Group tilkynning frá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og CARB (loftgæðaeftirliti Kaliforníu). Þar var því slegið föstu að ákveðnar tegundir af dísilvélum frá Volkswagen stæðust ekki gildandi umhverfiskröfur í Bandaríkjunum.

Kæri viðskiptavinur

Þann 18. september 2015 barst Volkswagen Group tilkynning frá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og CARB (loftgæðaeftirliti Kaliforníu). Þar var því slegið föstu að ákveðnar tegundir af dísilvélum frá Volkswagen stæðust ekki gildandi umhverfiskröfur í Bandaríkjunum. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum rær Volkswagen Group nú að því öllum árum að leysa vandamál við tiltekinn hugbúnað sem notaður er í ákveðnum dísilvélum.

  • Heildarfjöldi bíla sem málið snertir hefur verið greindur.
  • Á Íslandi er um að ræða 3647 bíla.
    • 1129 Volkswagen fólksbílar, 348 Volkswagen atvinnubílar, 316 Audi og 1854 Skoda.
  • Tæknilegar lausnir eru í vinnslu og verða kynntar fyrir þýskum yfirvöldum í október.
  • Uppfærsla innan EES svæðisins hefst um leið og samþykki liggur fyrir frá þýskum yfirvöldum.
  • Haft verður samband við alla viðskiptavini sem málið varðar.

Öll ökutæki sem þetta snertir eru fullkomlega örugg til aksturs. Málið varðar eingöngu þær mengandi lofttegundir sem losaðar eru.

Bílarnir sem um ræðir eru framleiddir á árunum 2008 til 2015 og eingöngu er um að ræða dísilvélar af gerðinni EA 189. Málið snertir ekki nýja bíla sem eru samkvæmt EU6 staðlinum, sem gildir um alla Evrópu, heldur eingöngu bíla með dísilvélar af gerðinni EA 189.

Volkswagen Group leggur allt kapp á að finna lausn á málinu og hefur kynnt aðgerðaráætlun.

Aðgerðaáætlunin felur í sér að Volkswagen og önnur merki samstæðunnar munu í október birta yfirvöldum tæknilegar lausnir og framkvæmd þeirra og leita samþykkis á þeim fyrir viðkomandi bílgerðir með dísilvélar af gerðinni EA 189. Þegar þýsk yfirvöld hafa samþykkt tæknilegu lausnirnar munu þær verða útbúnar til innleiðingar innan alls EES svæðisins.

Í kjölfarið verður haft samband við hvern og einn viðskiptavin sem málið snertir og hann upplýstur um hvernig hægt sé að bæta losunarbúnað bílsins.

Volkswagen Group hefur lýst yfir fullri ábyrgð á þeim tæknilegu lagfæringum sem grípa þarf til og þeim kostnaði sem af hlýst.

Okkur hjá HEKLU þykir þetta mjög miður og viljum gera allt sem við getum til að tryggja að viðskiptavinir okkar finni til öryggis og endurvinna það traust sem fólk hefur borið til Volkswagen. Við höfum útbúið lista með spurningum og svörum sem við getum veitt á þessari stundu og munum uppfæra hann um leið og frekari upplýsingar berast. Hér að neðan má finna vefslóð að upplýsingum fyrir hvert vörumerki.

Með kærri kveðju,
Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU.

Smelltu hér til að skoða upplýsingar fyrir Volkswagen.
Smelltu hér til að skoða upplýsingar fyrir Skoda.
Smelltu hér til að skoða upplýsingar fyrir Audi.