Fara í efni

Umhverfisvænt samstarf HEKLU og IKEA.

HEKLA og IKEA hafa hrundið af stað samstarfsverkefninu „Þvílíkt lán“ sem gengur út á að lána viðskiptavinum IKEA bíl til að koma innkaupavörum sínum heim.

Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja mánaða þar sem HEKLA lánar viðskiptavinum IKEA sívinsæla tengiltvinnbílinn Mitsubishi Outlander PHEV í tvær klukkustundir án endurgjalds til að flytja IKEA vörurnar heim.

Outlander PHEV gengur fyrir bæði rafmagni og bensíni og er umhverfisvænn farkostur ásamt því að vera einkarrúmgóður. Það er í takt við þær umhverfisvænu línur sem IKEA hefur lagt með uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir rafmagns- og tengiltvinnbíla fyrir viðskiptavini sína.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem IKEA og HEKLA taka höndum saman en í ágúst 2016 sameinuðust fyrirtækin í því að setja upp tíu hleðslustöðvar fyrir raf- og tengiltvinnbíla. Í dag eru hleðslustöðvarnar fyrir viðskiptavini IKEA orðnar 60 talsins við verslunina og er verslunin í algjörum sérflokki í að útvega viðskiptavinum sínum fría hleðslu á meðan verslað er. Með samstarfinu við HEKLU geta viðskiptavinir IKEA bætt um betur og hlaðið lánsbílinn af vörum og ekið þeim heim á vistvænum bíl.