Fara í efni

Nýr Volkswagen Golf

Ef þú þyrftir að reiða þig á einn bíl það sem eftir er ævinnar, hvaða bíll myndi það vera?

Nýr Volkswagen Golf er kominn til landsins en það er sjöunda kynslóð þessa vinsæla bíls en tæplega 30 milljón eintök hafa selst síðan hann kom fyrst á markað 1974. Þessi mikla sigurför, undanfarin tæp 40 ár, er ekki síst því að þakka að Golf hefur ávalt verið áreiðanlegur og verið sá bíll sem stendur fólki næst.

Sjö kynslóðir

Fyrsta kynslóðin var í framleiðslu frá 1974 til 1983, þegar önnur kynslóðin sá dagsins ljós, aðeins lengri, breiðari, jafnt að utan sem innan og með lengra hjólhaf. Til gamans má geta þess að þessi fyrsta kynslóð Golf var framleidd áfram lítið breytt í Suður-Afríku allt fram til ársins 2009.

Næstu kynslóðir Golf tóku áfram breytingum, 3ja kynslóðin kom fram 1991 og þá með túrbódísilvél með beinni innsprautun eldsneytis, TDI, og einnig með nýrri V-6 vél, 2,8 lítra VR6. Með þriðju kynslóðinni fóru línurnar í útlitinu að mýkjast og þessi gerð Golf var valinn „Bíll ársins 1992 í Evrópu“.

Með fjórðu kynslóðinni sem kom fram á sjónarsviðið 1997 varð Golf enn rennilegri, og fimmta kynslóðin sem var frumsýnd 2003 var mjög svipuð í útliti. GTI-gerðin kom með 200 hestafla útgáfu af tveggja lítra TFSI-vélinni.

Sjötta kynslóðin sem kom á markað 2008 var að mestu byggð á sama grunni og sú næsta á undan, en með töluvert breyttu útliti, enn straumlínulagaðri, sem hjálpaði til við að draga úr eldsneytiseyðslu og einnig hljóðlátari. Meira var lagt upp úr innréttingu og notendavænleika.

Betri en nokkru sinni fyrr

Sjöunda kynslóð Golf, sem var frumsýnd á haustdögum, er að sögn hönnuða VW betri en nokkru sinni fyrr. Bíllinn er aflmeiri og sparneytnari en áður, hraðskreiðari og öruggari og léttari. Gagnstætt því sem almennt gerist í bílaheiminum þá stækka bílar og þyngjast á milli árgerða eða kynslóða, en þessi nýi Golf er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn. Bíllinn er líka verulega sparneytnari, því hann eyðir allt að 23% minna eldsneyti, sem auðvitað fer eftir vélargerð.

Þessi sjöunda kynslóð Golf er einnig væntanleg með BlueMotion-tækni, og í þeirri útgáfu verður eyðslan aðeins 3,2 lítrar af eldsneyti á hundraðið og með þessari vél sendir bíllinn aðeins 85 grömm af CO2 út í andrúmsloftið á hvern ekinn kílómetra

Aukið öryggi og þægindi

Þrátt fyrir að þessi nýi Golf sé léttari en fyrirrennarinn þá hefur í engu verið slakað á hvað varðar öryggi og þægindi. Þvert á móti hefur fótarými í aftursæti verið aukið og farangursrými er 30 lítrum stærra. Hvað öryggið varðar þá eru hemlakerfi með árekstarvörn, skriðstillir sem aðlagar sig að akstursaðstæðum, heldur jafnri fjarlægð frá næsta bíl og eyður eða minnkar hraðann í samræmi við flæði umferðarinnar, „aðstoð að framan“ með neyðarhemlun í borgarumferð, og „akreinaaðstoð“ meðal öryggisatriða í sjöundu kynslóð Golf.

Golf er nú einnig í boði með „þreytuskynjun“, sem fylgist með aksturslagi ökumanns og gefur fimm sekúndna viðvörunarhljóð ef vart verður við ónákvæm viðbrögð vegna þreytu í akstri, jafnfram birtast skilaboð á skjá sem mæla með hvíld fyrir ökumanninn.

Snertiskjár er staðalbúnaður í öllum gerðum og algerlega ný kynslóð upplýsinga- og afþreyingarkerfa, sem eru með skjá sem svara handahreyfingum í betur búnu gerðum hins nýja Golf. Hljómtækin eru með inntaki fyrir aukabúnað (þar með talið USB) og eru tilbúin fyrir Bluetooth tengingu farsíma.

Hvað varðar hönnun innanrýmis þá er hún frekari þróun á því sem var til staðar í sjöttu kynslóð VW Golf, og nú er mælaborð og stjórnbúnaður sveigður meira í átt að ökumanninum. Innanrými er rúmbetra, hærri ökumenn finna það strax að aftursætið er 20 mm aftar sem gefur meira rými, og stillingar á stýrishjóli hafa verið endurbættar.

Meðal nýjunga í innanrými er að nú í fyrsta seinn er það valkostur í Golf að í hólfi undir armhvílu í miðju er alhliða símahalda með loftneti, sem ekki aðeins eykur langdrægni símans því það eykur einnig líftíma rafhlöðunnar. Þegar síminn er lagður í festinguna þá tengist hann sjálfkrafa útiloftnetinu, sem þýðir að sjálfsögðu minni útgeislun frá loftneti farsímans inni í bílnum.

Besta hönnunin hefur verið endurbætt enn frekar

Saga þessara sjö kynslóða Golf, er ekki aðeins saga árangurs í tæknilegu og efnahagslegu tilliti, en er jafnframt samfelld sigurganga hönnunar. Útlit Golf í dag er ein af þekktustu vöruhönnun í heiminum í dag, eða eins og yfirmaður hönnunardeildar Volkswagen AG, Walter de Silva segir: „Árangur Golf liggur í stöðugri þróun. Hönnunin hefur verið fáguð, fínstillt og þróuð síðustu áratugina, og er þar af leiðandi orðin tímalaus“.

„Grunnútlit Golf er rökrétt, gegnheilt og með fókus á vöruna, hreinar og nákvæmar línur og endurspeglar hönnun vörumerkisins, sem fullkomna fyrirmynd sköpunargáfu“, segir Klaus Bischoff aðalhönnuður Volkswagen. „Grunnur útlits Golf er því skýr. Það hefur í för með sér tilfinningu einfaldleika, styrks, skilnings, áreiðanleika og öryggis. Atriði eins og hagkvæmni í notkun og áherslulínur eru frekar eins og fínleg blæbrigði“.

„Það er einnig mikilvægt að hafa í huga hlutföll sjöundu kynslóða Golf hafa breyst verulega“, segir Bischoff, og útlitið sé með meira sjálfstraust en áður. Marc Lichte, útlitshönnuður Golf útskýrir þetta nánar: „Hlutföllin hafa breyst svo verulega vegna þess að við nýtum okkur kosti þverstæðrar hönnunar að framan. Svo dæmi sé tekið þá voru framhjólin færð 43 millimetrum framar. Þetta gerir yfirhang að framan styttra og vélarhlífin virðist samhliða vera lengri. Sjónrænt sé þá hefur farþegarýmið verið fært aftar, sem gefur sama útlit og á stærri bílum þar sem vélarhlífin er löng og farþegarýmið nær langt aftur. Í nýja Golf erum við með hlutföll sem aðeins sjást í stærri bílum á markaðnum“.

Í útliti er þessi nýi Golf enn rennilegri en fyrirrennarinn, bæði fram- og afturljós eru ný og ljósdíóðutæknin (LED) er til staðar í dagljósabúnaði með xenon ökuljósum.